




Einelti er ekki liðið í Breiðholtsskóla. Væntingar um hegðun og samskipti allra í skólanum eru unnar ut frá einkunnarorðum skólans, ábyrgð, traust og tillitsemi.
Nemendur og starfsmenn fá fræðslu um birtingarmyndir eineltis og hvernig þeir eigi að bregðast við samkvæmt verkferlum skólans ef þeir verða varir við einelti. Einnig er markvisst forvarnarstarf í hverjum árgangi.
Nemendur starfsmenn og foreldrar undirrituðu eftirfarandi vináttusáttmála í nóvember 2016:
Við í Breiðholtsskóla ætlum að sýna samstöðu og vinna af alefli gegn einelti í skólanum okkar.
Við ætlum að vera góðar fyrirmyndir, sýna hvert öðru vináttu, virðingu, kurteisi, hjálpsemi og tillitsemi.
Við ætlum að leggja okkar af mörkum til að skapa jákvæðan skólaanda og vinsamlegt samfélag.
Í Breiðholtsskóla eru kvartanir vegna eineltis teknar alvarlega, þær rannsakaðar, þeim fylgt eftir og gerðar nauðsynlegar ráðstafanir.
Öflugasta forvörnin gegn einelti felst í því að nemendur læri með skipulögðum hætti að vera saman í leik og starfi þar sem lýðræði, mannréttindi og jafnrétti eru höfð að leiðarljósi.
Þessi gildi eru samþætt öllu skólastarfi en einskorðast ekki við ákveðnar kennslustundir.
Skilgreiningar á einelti
Einelti er markvisst og oft langvarandi líkamlegt og andlegt ofbeldi þar sem einn eða fleiri níðast á einum.
Einelti þróast út í valdasamband milli geranda og þolanda þar sem gerandi hefur nær óskorðað vald yfir þolanda. Endurtekið athæfi geranda skilgreinist sem einelti.
Einelti birtist í mörgum myndum og getur verið:
Líkamlegt
Barsmíðar, spörk, hrindingar og skemmdir á eigum.
Munnlegt
Uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni.
Óbeint
Baktal, útskúfun, þolandi er afskiptur eða útilokaður úr hópi.
Einelti getur verið mjög dulið og þróast þannig að gerandi nær tökum á þolanda á þann hátt að augnatillit frá geranda verði nóg til að þolanda sé ógnað og að viðkomandi finni til hræðslu og óöryggis. Það er ekki formið sem skiptir máli heldur hvaða áhrif áreitið, eineltið, hefur á þolanda.
Um einelti getur verið að ræða hvort sem það er ásetningur geranda eður ei. Það eru áhrif hegðunarinnar á aðra sem vega þyngst þegar metið er hvort um einelti er að ræða eða ekki.
Mikilvægt er að hafa í huga að gerendur eru ekki alltaf meðvitaðir um hversu sársaukafullt eineltið er fyrir þann sem verður fyrir því.
Gegn einelti í Breiðholtsskóla
Þegar grunur leikur um að barn sé lagt í einelti í Breiðholtsskóla fer eftirfarandi ferli í gang:
Grunur um einelti vaknar og er tilkynntur skólayfirvöldum.
Viðtöl við þolanda, geranda og foreldra þeirra.
Upplýsingar dregnar saman eftir viðtöl við alla aðila.
Samráðsfundur með forráðamönnum allra aðila.
Eyðublöð
Gögn sem unnið er með í eineltisvinnu í Breiðholtsskóla má finna á eftirfarandi eyðublöðum. Nálgast má eyðublöðin og aðgerðaráætlunina í heild sinni hér - Aðgerðaráætlun
