Skip to content

Markmið

Meginmarkmið stefnu Reykjavíkurborgar er að stuðla að sem bestri þjónustu við nemendur með sérþarfir í grunnskólum borgarinnar, uppfylla markmið laga og Aðalnámskrár um kennslu í samræmi við eðli og þarfir nemenda og að nýta fjármagn til sérkennslu sem best.

Þeir sem ekki fylgja námsframvindu sem getur talist eðlileg miðað við aldur fá meiri stuðning og námsaðstoð eftir þörfum. Við úthlutun sérkennslu- og stuðningsfulltrúatímum liggja greiningar, skimanir, námsmat og beiðnir umsjónarkennara og foreldra með rökstuðningi til grundvallar. Sjá nánar bækling um framkvæmd sérkennslu í almennum grunnskólum.

Framkvæmd

Eins og í öðrum grunnskólum í Reykjavík er fjöldi sérkennslustunda miðaður við nemendafjölda. Deildarstjóri og sérkennarar ásamt bekkjarkennurum yfirfara umsóknir um sérkennslu að vori og leggja mat á þörf út frá þeim og niðurstöðum prófa og athugunum.

Þörf fyrir aðstoð stuðningsfulltrúa er metin út frá greiningum sem fylgja nemendum og upplýsingum frá leikskólum en þeir eru einkum til stuðnings fötluðum nemendum og nemendum með miklar sérkennsluþarfir.

Í Laugarnesskóla eru rúmlega 400 nemendur sem þýðir að skólinn hefur sem svarar 60 stundum til ráðstöfunar í almenna sérkennslu. Í skólanum eru 6 árgangar og fær hver árgangur því um það bil 10 stundir í sérkennslu á viku. Það fer eftir nemendahópunum hve margar stundir hver árgangur fær.

Almenna reglan er að sérkennslan er sett á töflu samhliða íslensku og stærðfræði tímum í bekkjunum til þess að auka líkur á því að blanda nemendum saman og veita þeim kennslu miðað við þarfir þeirra. Þeir nemendur sem fá boð um að þiggja sérkennslu á hverju ári eru þeir sem umsjónarkennararnir í samráði við foreldra á grundvelli kannana og greininga hafa metið að vori að þurfi á henni að halda.

Meginþungi sérkennslu er í íslensku og stærðfræði en hún getur einnig tengst öðrum námssviðum til dæmis hreyfingu. Mikil áhersla er lögð á að styrkja sjálfsmynd nemandans og að honum líði vel í skólanum. Í sérkennslunni er lögð áhersla á að greina námsstöðu nemendanna snemma á skólagöngunni eða skólaárinu og koma þar með betur til móts við þarfir þeirra.

Lögð er áhersla á margvíslega framsetningu námsefnis og þá tekið mið af þörfum einstaklingsins í því efni. Sérkennsla getur ýmist verið til lengri eða skemmri tíma. Um er að ræða einstaklingskennslu eða kennslu í litlum hópi sem fer ýmist fram í bekk eða utan.

Einstaklingsáætlun er gerð fyrir nemendur sem þörf þykir á að gera verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og /eða kennsluháttum miðað við það sem öðrum nemendum er boðið upp á. Sérkennarar og umsjónarkennarar fara yfir stöðu nemenda og vinna síðan áætlun í samráði við foreldra og nemendur.

Ákveðið er í hvaða formi samskipti við heimili verða. Umsjónarkennari ber ábyrgð á að einstaklingsáætlun sé gerð en hún er unnin í samvinnu sérkennara og umsjónarkennara og fylgt eftir af sérkennara.

Mat umsjónarkennara er byggt á margs konar skimunum, könnunum og prófum. Í öllum árgöngum eru lagðar fyrir ákveðnar kannanir á hverju ári. Auk þess eru aðrar kannanir og próf sem kennarar leggja fyrir m.a. við annaskipti.

Sérkennarar greina bæði lestrar -tal- og stærðfræðierfiðleika með viðurkenndum, stöðluðum, greiningartækjum. Endurmat á nemendahópnum fer fram a.m.k. þrisvar á vetri til þess að fylgjast með því að nemendur sem þurfa á sérkennslu að halda, fái hana.

Í Laugarnesskóla hefur verið í þróun undanfarin skólaár, sérúrræði,Smiðja, sem ætluð er sem tímabundið úrræði fyrir nemendur sem rekast mjög illa í almennum bekk. Reynslan hefur sýnt að það er þörf fyrir slíkt úrræði.

Annar stuðningur er meðal annars stuðningsfulltrúar og er hlutverk þeirra að vera nemendum til stuðnings undir verkstjórn kennara og er tímum þeirra úthlutað eftir þörfum nemendahópa. Þroskaþjálfi sinnir nemendum með þroskafrávik.