Skip to content

Breiðholtsskóli vinnur eftur verklagsreglum Reykjavíkurborgar um þjónustu við nemendur með fjölþættan vanda. Smellið → hér til að lesa verklasreglurnar.

Stoðþjónusta Breiðholtsskóla er samheiti yfir alla þá stoðþjónustu sem styður við almenna kennslu innan skólans. Stoðþjónusta getur falist í ráðgjöf til kennara varðandi kennslu eða annað er snýr að nemendum. Áhersla er lögð á að nemendur fái markvissan stuðningi til lengri eða skemmri tíma. Stoðþjónustan byggir á þverfaglegri samvinnu. Í skólanum starfa sérkennarar, kennarar, þroskaþjálfar, stuðningsfulltrúar og annað starfsfólk með ólíkan en dýrmætan bakgrunn. Stoðþjónustan nær yfir stuðning, námsráðgjöf og aðra sérfræðiaðstoð og innan hennar starfar þverfaglegt teymi sem samanstendur af sérkennurum, kennurum, þroskaþjálfum og náms- og starfsráðgjafa sem sjá um m.a. sérkennslu ýmist í hópum eða einstaklingsbundið, inni í bekk eða í sérkennslustofu. Þeir aðstoða kennara við aðlögun námsefnis og við námsmat þegar þörf er á og vinna einstaklingsnámskrár og áætlanir fyrir nemendur í samvinnu við kennara og þroskaþjálfa.

Ýmsir starfsmenn geta komið að þjónustu við nemendur með fatlanir eða aðrar skilgreindar þarfir. Lögð er áhersla á samvinnu allra fagaðila undir stjórn skólastjóra, deildarstjóra stoðþjónustu og umsjónarkennara viðkomandi barns.

Skólinn leitast við að veita öllum nemendum sínum námstilboð við hæfi. Stoðþjónustan getur falið í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsumhverfi, kennsluaðferðum og námsmati miðað við það sem almennt gerist og er þá kennt samkvæmt markmiðum einstaklingsnámskrár sem er einstaklingsbundin kennsluáætlun. Í einstaklingsnámsskrá kemur fram hvar nemandi stendur í námi, tiltekin markmið sem ætlað er að ná ákveðnu tímabili og aðferðir sem eru notaðar til að meta hvort nemandinn hafi náð settum markmiðum. Sérkennarar sem sjá um sérkennslu ýmist í hópum eða einstaklingsbundið, inni í bekk eða í sérkennslustofu. Þeir aðstoða kennara við aðlögun námsefnis og námsmats þegar þörf er á og vinna einstaklingsnámskrár og áætlanir fyrir nemendur í samvinnu við kennara og þroskaþjálfa.

Þroskaþjálfar  vinna í flestum tilfellum með ákveðnum nemendum en geta einnig stutt við nemendahópa til dæmis við félagsfærniþjálfun, útbúa sjónræn og myndræn fyrirmæli fyrir nemendur og kennara, skipuleggur þjálfunaraðstæður, aðlaga námsgögn og fylgir eftir settum markmiðum.

Stuðningsfulltrúar vinna undir leiðsögn deildarstjóra, kennara og þroskaþjálfa og styðja nemendur námslega og félagslega. Þeir vinna mest inni í bekk bæði með einstaklingum og hópum.

Námsráðgjafi  styður við nemendur og liðsinnir í málum sem snerta nám, skólavist, framhaldsnám og starfsval. Jafnframt sinnir hann ráðgjöf til kennara.
Sérfræðingar þjónustumiðstöðvar Breiðholts koma að málefnum nemenda eftir því sem þurfa þykir.

Umsjónarkennari  sækir um stoðþjónustu á eyðublöðum sem eru kölluð A- og B blöð. A blöð eru ætluð fyrir umsóknir vegna barna með ýmiskonar greiningar og B blöðin eru ætluð fyrir almenna stoðþjónustu og sérkennslu.

Foreldrar geta sótt um stoðþjónustu á heimasíðu skólans, rætt við umsjónarkennara, náms- og starfsráðgjafa eða stjórnendur. Beiðnir frá nemendum berast til umsjónarkennara, náms-og starfsráðgjafa en stundum til stjórnenda. Umsókn nemenda er sett á A eða B blöð og komið til deildarstjóra stoðþjónustu. Allar umsóknir um stoðþjónustu berast deildarstjóra stoðþjónustu sem kemur þeim í ferli og vinnslu hjá viðeigandi sérkennurum, þroskaþjálfum eða stuðningsfulltrúum eftir því sem við á.

Deildarstjóri stoðþjónustu leitast við að uppfylla óskir um sérkennslu og stuðning eins og kostur er í samráði við kennara og/eða stjórnendur. Þegar umsókn hefur verið samþykkt fá umsjónarkennarar upplýsingar um hvernig henni verði háttað og yfirlit yfir helstu markið. Foreldrar fá tölvupóst um skipulag stoðþjónustunnar, tímamagn og helstu markmið. Þeir eru beðnir um að staðfesta móttöku með tölvupósti. Verði breytingar á stoðþjónustu eru umsjónarkennarar og foreldrar upplýstir um það með tölvupósti.
Hafni foreldrar stoðþjónustu gera þeir það skriflega til deildarstjóra stoðþjónustu eða skólastjóra.

Teymisfundir
Myndað er teymi sem í sitja foreldrar, umsjónarkennari, stuðningsfulltrúar sem aðstoða viðkomandi nemanda og deildarstjóri stoðþjónustu. Fundað er reglulega, teymisfundi sitja stundum fulltrúi frá þjónustumiðstöðvar og/eða aðrir þeir aðilar sem að málum koma, svo sem sjúkraþjálfi eða talmeinafræðingur. Sum teymi funda á 6-8 vikna fresti, önnur sjaldnar.

Nemendaverndarráð
Nemendaverndarráð fundar reglulega. Í því sitja: Skólastjóri, deildarstjóri stoðþjónustu, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi og sálfræðingur þjónustumiðstöðvar. Fundir eru haldnir annan hvern mánudagsmorgun. Foreldrar eru alltaf upplýstir um þegar fjallað er mál barna á fundum nemendaverndarráðs en ekki þarf samþykki þeirra fyrir því.

Próf
Nemendur í stoðþjónustu geta átt rétt á lengri tíma til þess að taka próf og að taka prófin í sérrými. Stundum þarf að lesa upp texta og spurningar fyrir nemanda og/eða veita aðstoð við að skrifa upp svörin. Sumir nemendur eru kvíðnir eða eiga erfitt með einbeitingu, þá getur verið gott að taka próf í næði í öðru rými. Ósk um aðstoð í prófum kemur yfirleitt fram í samtali nemanda og umsjónarkennara, einnig er gott að foreldrar geri viðvart ef þeir telja börn sín þurfa að aðstoð að halda.

Deildarstjóri stoðþjónustu er Kolbrún Ósk Albertsdóttir. Netfang: kolbrun.osk.albertsdottir@rvkskolar.is

- Beinn sími: 4117461

Smellið hér til að sækja umsóknareyðublað um stoðþjónustu.