Breiðholtsskóli er heilstæður grunnskóli með nemendur í 1. til 10. bekk. Skólinn er í hverfi með blandaðri byggð sem er vel afmarkað landfræðilega og af fjölförnum umferðaræðum. Kjörorð skólans er “árangur fyrir alla”. Skólinn er skipulagður með þeim hætti að kennarar sérhæfa sig í tilteknum fögum eða tveimur til þremur árgöngum. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðað nám þar sem litið er á nemendur hvers árgangs sem eina heild. Námshópar eru því sveigjanlegir eftir viðfangs­efnum og aðstæðum. Auk almenns bóknáms, einkum lesturs, er lögð áhersla á kraftmiklar íþróttir, list- og verkgreinar. Öflugur stuðningur er við nemendur með sérþarfir bæði einstaklinga og hópa. Í skólanum eru starf­rækt nýbúaver fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Í skólanum er lagt upp með jákvæða hegðun og skýr viðmið og þar sem unnið er eftir PBS hegðunar­kerfinu. 
Félagsaðstaða fyrir unglinga er í félagsmiðstöðinni Bakkanum sem er staðsett í húsnæði Breiðholtsskóla. Bakkinn er starfræktur yfir vetrartímann og þar fer fyrst og fremst fram félagsstarf fyrir unglinga í 8. 9. og 10. bekk í Breiðholtsskóla. Einnig er þar starfræktur klúbburinn Tíu12 ára sem er tómstundaklúbbur fyrir krakka úr 5. 6. og 7.bekk.
Í samvinnu við skólann rekur ÍTR Perluna sem er athvarf eftir skóla fyrir börn sem þurfa sérstaka aðhlynningu.  
Í Breiðholtsskóla er miðstöð Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts og fara þar fram bæði hóp­æfingar og einstaklingskennsla auk þess sem skrifstofa hljómsveitarstjóra er í skólanum.

Prenta | Netfang