Skip to content

Í Breiðholtsskóla er lögð áhersla á að efla sjálfstraust, sjálfsvirðingu og námsgleði nemenda.
Vellíðan nemenda er í fyrirrúmi.

Gott sjálfstraust skiptir miklu máli fyrir vellíðan og gleði. Það er margt sem getur mætt á börnum og unglingum og þá er gott að geta leitað aðstoðar til að ná betri innri líðan, það er nefnilega hægt að byggja upp gott sjálfstraust.

Hvers vegna þarf skólinn að nota tíma í að vinna sérstaklega með sjálfstraust nemenda? Jú, börn og unglingar sem hafa gott sjálfstraust þora að vera þau sjálf, þau eiga auðveldara en annars að gera það sem hugur þeirra stendur til jafnvel þó að einhverjir reyni að beita þá þrýstingi til að gera eitthvað annað.

Nemendur með gott sjálfstraust eiga auðveldara en annars með að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að stunda nám sitt vel. Nám í grunnskóla er mikilvægur grunnur fyrir líf þeirra í nútíð og ekki síst í framtíð. Náminu þarf að sinna vel og brýnt er að nemendur láti kennara sína vita ef þeir þurfa aðstoð með að ná traustum tökum á námsefninu.

Gott sjálfstraust auðveldar svo margt. Því leggjum við í Breiðholtsskóla áherslu á sjálfseflingu og aukið sjálfstraust. Þetta er gert í gegnum ýmsa vinnu kennara með nemendum, t.d. æfa nemendur sig í að koma fram fyrir bekkjarfélaga sína með kynningar á námsverkefnum, með upplestur o.fl. Þar að auki verður unnið með sjálfseflingu í gegnum ákveðin námskeið og hópmarkþjálfun í unglingadeild.