Skip to content

Í Breiðholtsskóla er lögð áhersla á gagnvirka teymisvinnu kennara sem koma að kennslu sömu nemenda. Þetta táknar að innan hvers árgangs starfa saman all nokkrir kennarar sem ráðfæra sig við hvern annan um hvernig best sé hægt að vinna með nemendahópinn.
Hér eru umsjónarkennarar bekkjardeilda í fararbroddi því þeir skipuleggja saman námsefni annarinnar, markmið, leiðir og umbun. Þar sem eru tvær eða fleiri bekkjardeildir skipuleggja umsjónarkennararnir ákveðið flæði á milli hópa í afmörkuðum verkefnum. Þannig veljast saman í hópa nemendur úr báðum eða öllum "bekkjum" í t.d. hópverkefni í íslensku, stærðfræði eða aðrar námsgreinar. Það getur einnig komið til að tveir eða þrír hópar í stærðfræði fara dýpra í ákveðið efni sem unnið er með samkvæmt kennsluáætlun. Í einum hóp er þá verið að festa betur grunnhugtök og grunnaðferðir til að tryggja að nemendur í þeim hópi nái þeim grunntökum sem þeir hafa áður átt erfitt með en eiga auðveldara að ná tökum á í fámennum hópi. Annar hópur er þá mögulega í viðbótarverkefnum þar sem verið er að þjálfa áfram þær stærðfræðiaðferðir sem nemendur hafa verið að vinna með og sá hópur er almennt fjölmennastur. Í þriðja hópnum eru síðan nemendur sem þurfa að fá erfiðari verkefni til að glíma við þar sem þeir hafa áður sýnt að þeir eru alveg öruggir á stærðfræðiaðferðum sem unnið er með samkvæmt kennsluáætlun.
Á þennan hátt leggja kennarar sig eftir því að þjónusta nemendahópinn sem best, allir þurfa að fá að njóta sín.