Íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir nemendur sem hafa ekki nægilegt vald á íslensku til að geta stundað nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Þetta á jafnt við nemendur af íslenskum sem erlendum uppruna. Námsgreinin íslenska sem annað mál nær til allra námsgreina. Nemendurnir geta hafið nám í íslenskum skólum á hvaða námsstigi sem er og með mismunandi íslenskukunnáttu og menntunarbakgrunn. Í kennslunni er lögð áhersla á talmál, skilning, hlustun, lestur, ritun, menningarfærni, skólamál og námsfærni. Notaðar eru fjölbreyttar kennsluaðferðir og tekið er mið af aldri og stöðu nemendanna hverju sinni.
Markmið kennslunnar er að nemandi verði fær um að nota íslenskt mál og menningarfærni sér til framdráttar í samskiptum og sem grunn undir frekara nám og:
• Noti íslensku til að tjá hug sinn og þarfir í töluðu og rituðu máli og skilji aðra
• Noti íslensku til að taka þátt í samræðum og leikjum og taka tillit til viðmælenda
• Hafi þroskað með sér menningarfærni sem auðveldar samskipti við önnur börn og fullorðna
• Geti leikið sér með málið og prófað tilgátur um mál og málnotkun
• Geti lesið einfalda texta sér til gagns og ánægju og tjáð sig um þá í töluðu og rituðu máli í samræmi við íslenskar málvenjur, aldur og þroska.
Markvisst er unnið að því að nemendur geti tekið þátt í almennu námi með jafnöldrum sínum og miðar allur stuðningur við það. Unnið er markvisst að aukningu orðaforða nemenda á íslensku í öllum námsgreinum. Á bókasafni skólans geta nemendur sótt sér aukinn stuðning eftir þörfum alla eftirmiðdaga.
Móttaka nemenda með íslensku sem annað tungumál.
Samkvæmt lögum eiga allir grunnskólar eða sveitarfélög að hafa .......
,,Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni
þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og
foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf.“
(Sbr. 16. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008)
Móttökuáætlun Breiðholtsskóla vegna nemenda með íslensku sem annað mál tekur mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um skólann og þjónustuna í hverfinu. Áætlun skólans og gátlistarnir eru að miklu leyti byggðir á vinnu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Ítarlegri upplýsingar og gagnlegar slóðir má nálgast hér- Móttökuáætlun vegna barna með íslensku sem annað tungumál.
Íslenska grunnskólakerfið – myndbönd
Hér gefur að líta glæsileg myndbönd þar finna má greinagóða lýsingu á íslenska grunnskólakerfinu. Myndböndin eru sérstaklega gagnleg fyrir foreldra sem eru eiga börn sem eru að hefja skólagöngu. Myndböndin má finna á íslensku, ensku, filipseysku, pólsku og arabísku. En til stendur að talsetja myndbandið á enn fleiri tungumálum.
Móttökuáætlun Breiðholtsskóla tilgreinir ítarlega hvað fer fram við innritun nemanda,
nauðsynlegan undirbúning foreldra/skólans fyrir komu nemandans og fyrstu skref hans. Einnig
fjallar hún um hvað felst í móttökuviðtali og gátlista sem nauðsynlegt er að nota við undirbúning
móttökuviðtals.
Innritun
Þegar foreldrar óska eftir skólavist fyrir barn sitt fá þeir afhent innritunarblað. Mikilvægt er að
sá sem tekur á móti foreldrum fái upplýsingar um nafn nemandans, fæðingarár, símanúmer,
þjóðerni og tungumál svo hægt sé að útvega túlk ef þörf krefur. Hægt er að skrá nemandann í skólann án þess að hann sé með kennitölu, en foreldrum er bent á að sækja sem fyrst um kennitölu fyrir nemandann.
Við innritun er ákveðinn tími fyrir móttökuviðtal. Viðtalið fer fram með foreldrum/forráðamönnum, nemanda, umsjónarkennara, skólastjórnanda, tengilið Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og túlki ef þörf er á. Foreldrar fá upplýsingar um hverjir muni sitja fundinn, auk þess sem þeim er bent á hvaða gögn þeir þurfa í móttökuviðtalið þ.e. upplýsingar um fyrri skólagöngu (námsmat og greiningar),
heilbrigðisvottorð og bólusetningarvottorð.
Undirbúningur fyrir komu
Skólastjórnendur velja umsjónarhóp fyrir nemandann og er umsjónarkennara tilkynnt um komu
hans og hvenær móttökuviðtalið fer fram. Mikilvægt er að umsjónarkennari undirbúi bekkinn
fyrir komu nemandans, sjá Gátlisti fyrir kennara. Öðrum kennurum sem kenna bekknum er
einnig tilkynnt um væntanlegan nemanda. Tekin eru saman þau gögn sem nauðsynlegt er að
hafa meðferðis í móttökuviðtalið, sbr. Gátlista fyrir móttökuviðtal nemenda með íslensku sem annað tungumál
Markmið móttökuviðtalsins er tvíþætt annars vegar að afla upplýsinga um nemandann og hins vegar að veita upplýsingar um skólann þ.á.m. um hvað nemandinn skal hafa með í skólann, hvað foreldrar þurfa að útvega s.s. skólatösku, pennaveski, íþróttaföt, sundföt o.s.frv. um nesti, hádegismat, frístundastarf og foreldrafélagið. Einnig um hvað skólinn útvegar s.s. nemendabækur, bókasafnsbækur, orðabækur og nemendaskápa.
Veita skal foreldrum upplýsingar um starfshætti skólans, skólareglur og hefðir, næringu og heilsu, samstarf skóla og skólaforeldra, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og annað íþrótta- og æskulýðsstarf í hverfinu. Einnig er mikilvægt að upplýsa foreldra um ábyrgð og skyldur foreldra í íslensku skólakerfi enda getur það verið gerólíkt því sem foreldrarnir hafa vanist. Loks skal upplýsa foreldra um viðbrögð við óveðri.
Þetta getur einnig átt við um uppeldi og því er lagt til að skólinn prenti út og afhendi foreldrum bæklinginn Við og börnin okkar. Gera þarf ráð fyrir tíma til að kynna foreldrum Rafræna Reykjavík og Mentor og aðstoða við skráningu. Áður en viðtalinu lýkur er fjölskyldunni fylgt um skólann og frístundaheimilið/félagsmiðstöðina. Jafnframt er ákveðið hvenær nemandinn byrjar í skólanum.
Gátlistar skólans.
Gátlisti fyrir móttökuviðtal nemenda með íslensku sem annað tungumál
Breiðholtsskóli hefur notað STÖÐUMAT FYRIR ERLENDA NEMENDUR - Sjá - https://mms.is/stodumat-fyrir-erlenda-nemendur
og stefnt er að því að halda áfram að nýta það til að styðja við vinnu skólans varðandi mat á þekkingu nemenda af erlendum uppruna þannig að skólinn geti undirbúið og lagað kennsluna að þörfum nemandans og þekkingargrunni hans.