Íslenska sem annað tungumál

Íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir nemendur sem hafa ekki nægilegt vald á íslensku til að geta stundað nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Þetta á jafnt við nemendur af íslenskum sem erlendum uppruna. Námsgreinin íslenska sem annað mál nær til allra námsgreina. Nemendurnir geta hafið nám í íslenskum skólum á hvaða námsstigi sem er og með mismunandi íslenskukunnáttu og menntunarbakgrunn. Í kennslunni er lögð áhersla á talmál, skilning, hlustun, lestur, ritun, menningarfærni, skólamál og námsfærni. Notaðar eru fjölbreyttar kennsluaðferðir og tekið er mið af aldri og stöðu nemendanna hverju sinni.
Markmið kennslunnar er að nemandi verði fær um að nota íslenskt mál og menningarfærni sér til framdráttar í samskiptum og sem grunn undir frekara nám og:
• Noti íslensku til að tjá hug sinn og þarfir í töluðu og rituðu máli og skilji aðra
• Noti íslensku til að taka þátt í samræðum og leikjum og taka tillit til viðmælenda
• Hafi þroskað með sér menningarfærni sem auðveldar samskipti við önnur börn og fullorðna
• Geti leikið sér með málið og prófað tilgátur um mál og málnotkun
• Geti lesið einfalda texta sér til gagns og ánægju og tjáð sig um þá í töluðu og rituðu máli í samræmi við íslenskar málvenjur, aldur og þroska.
Markvisst er unnið að því að nemendur geti tekið þátt í almennu námi með jafnöldrum sínum og miðar allur stuðningur við það. Unnið er markvisst að aukningu orðaforða nemenda á íslensku í öllum námsgreinum. Á bókasafni skólans geta nemendur sótt sér aukinn stuðning eftir þörfum alla eftirmiðdaga.