Skemmtilegt verkefni á skólabókasafninu

Í upphafsviku vorannar hófst nýtt og skemmtilegt verkefni á skólabókasafninu, Bókaormur vikunnar, þar sem lestrarspekingum í öllum árgöngum gefst tækifæri til að taka saman skemmtilegustu bækurnar sem þeir hafa lesið, kjósa besta höfundinn og fleira. Bókaormur vikunnar, og uppáhaldsbækurnar hans, verða svo til sýnis á safninu hverju sinni.
Bryndís Elfa í 4. bekk reið fyrst á vaðið og það kom okkur ekki á óvart að J.K. Rowling, höfundur Harry Potter bókanna, er í uppáhaldi hjá henni. Á topp 20 bókalista Bryndísar eru m.a. Harry Potter, Matthildur, Nornirnar, Slæmur pabbi, Miðnæturgengið, Kennarinn sem hvarf, Langelstur í bekknum, Hulduheimar, Kepler 62 og Lína langsokkur.
Bryndís er í nautsmerkinu og á afmæli 5. maí. Hún elskar pönnukökur með beikoni, eggjum og sýrópi, og uppáhaldslitirnir hennar eru gull og vínrauður.
Takk fyrir að vera fyrsti bókaormurinn okkar Bryndís og haltu áfram að vera svona dugleg að lesa!!