Skip to content

Fræðsla um handritaarfinn okkar

Í ár eru 50 ár liðin frá því að Íslendingar fengu skinnhandritin heim frá Danmörku og af því tilefni fengum við góða gesti frá Árnastofnun í heimsókn, þá Snorra Másson og Jakob Birgisson. Þeir fræddu nemendur í 6. bekk um handritaarfinn okkar, sögðu meðal annars frá því sem stendur í þeim og hvernig handritin voru búin til. Það var mjög fróðlegt að læra að í hefðbundna bók þurfti skinn af 130 kálfum, og að blekbyttur voru búnar til úr þvagblöðru svína! Snorri og Jakob sögðu okkur frá þrekvirki Árna Magnússonar sem ferðaðist um landið og safnaði handritunum fyrir meira en 300 árum og bjargaði þeim frá því að verða endurnýtt í skó og jafnvel eldhússigti sem dæmi. Þeir útskýrðu hvernig handritin okkar enduðu í Danmörku, sögðu frá brunanum í Kaupmannahöfn sem eyðilagði næstum þennan merkilega menningararf okkar og greindu frá því hvernig við varðveitum þessar gersemar í dag. Takk fyrir góða og skemmtilega fræðslu!